139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að það sé hægt að úthluta þessum fjármunum með öðrum hætti en við gerum, en það er ákaflega mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að hér erum við að tala um fjármuni sem renna til lítilla stofnana, gjarnan á landsbyggðinni, sem skipta gríðarlega miklu máli. Í því sambandi langar mig að nefna að þegar verið er að úthluta fjármunum upp á 2–2,5 millj. kr. getur það verið undirstaða þess að eitt háskólastarf komist á hvern stað. Ég bendi til að mynda á og beini því til meiri hluta fjárlaganefndar að hún skoði úthlutanir til Kötlu Geopark, sem er nýr garður, Kötluseturs og Kirkjubæjarstofu því að þarna gæti verið um að ræða þrjú háskólastörf í sveitum sem eiga verulega undir högg að sækja.

Ég held hins vegar að áhugi þingmanna almennt ætti að vera meiri á tölum upp á milljarða frekar en 100 þúsundköllum og 1–2 millj. kr.