139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:10]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að okkur finnist ýmislegt fyndið við breytinguna á þessu máli en það eru hins vegar 50 einstaklingar sem starfa við Varnarmálastofnun sem finnst ekkert fyndið við þennan lið. Þau eru í mikilli óvissu um það hvernig störfum þeirra verður háttað. Það er mikill ágreiningur innan verkefnastjórnarinnar sem var sett á stofn með lögum frá Alþingi. Það sem meira er er að þetta fólk hefur miklar áhyggjur af öryggis- og varnarmálum Íslands. Það hefur áhyggjur af því hvernig við ætlum að standa okkur sem þjóð meðal þjóða, hvernig við ætlum að standa við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum tekið að okkur. Þetta varðar hagsmuni þjóðarinnar og við getum ekki látið ágreining milli ráðuneyta taka völdin enn á ný. Menn verða að komast að niðurstöðu og samkomulagi um hvernig á að hátta öryggis- og varnarmálum Íslendinga.