139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:16]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að skýra út atkvæði mitt vegna liða 36 og 37, þ.e. Fiskistofu og Matvælastofnunar. Það hefur komið fram í umræðum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að þessar stofnanir hafa ásamt ráðuneytinu beðið um allt að 50–60 millj. kr. í ár og á næsta ári vegna aðildarviðræðna við Evrópusambandið, þ.e. þrjá til fjóra starfsmenn hvor stofnun og ráðuneytið. Þess sér ekki stað í þessu plaggi heldur er áfram 9% niðurskurður áætlaður á þær stofnanir og þetta ráðuneyti. Reyndar er Matvælastofnun aðeins undanskilin því þar sem hún á við það að etja að innleiða matvælalöggjöf Evrópusambandsins. Það er kostnaðarsamt, og kostnaðarsamara eftirlit en við höfðum áður og þess vegna er hún aðeins undanþegin.

Ég spyr hvort meiri hlutinn muni koma með breytingartillögu við 3. umr. eða hvort samningsstaða þessara tveggja stærstu liða sem þurfa að eiga við Evrópusambandið eigi að vera (Forseti hringir.) með einhverjum handarbakavinnubrögðum.