139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:31]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er mikið álag á umboðsmanni skuldara og þar eru um þúsund mál í vinnslu. Það endurspeglar þann vanda sem við stöndum frammi fyrir og því miður hefur ríkisstjórnin ekki náð að vinna úr skuldavanda heimilanna eða fyrirtækjanna í landinu. Ég fagna því þó að ég heyri þær raddir innan stjórnarmeirihlutans að menn skynji vandann og séu reiðubúnir að gera enn betur en gert hefur verið.

Mig langar til að taka undir með hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni. Það er vel hægt að stofna útibú frá umboðsmanni skuldara annars staðar á landinu. Við höfum barist fyrir því lengi að fá útibú frá Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna á Akureyri sem mundi sinna öllu Norðurlandi og Austurlandi. Því miður hefur okkur ekki verið sýndur nægilegur skilningur í félagsmálaráðuneytinu en vonandi verður breyting þar á.