139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að seilast enn frekar í vasa eldri borgara í landinu og þeim er gert að taka enn frekari þátt í að greiða fyrir dvöl sína á öldrunarstofnunum sem nemur aðeins um 1.260 millj. kr. til viðbótar. Þetta er rúmlega þreföldun á því sem eldri borgarar þurfa að greiða í dag fyrir dvöl á öldrunarstofnunum. Hér er verið að þrefalda þá upphæð. Til upprifjunar eru þær kjaraskerðingar sem eldri borgarar og örorkulífeyrisþegar hafa fengið á þessu ári, 2010, 4 milljarðar kr. umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu 2010. Það sýnir fram á það að aðgerðir ríkisstjórnarinnar á sínum tíma gegn þessu fólki voru mun harðari en ráð var fyrir gert og síðan koma hæstv. ráðherrar fram og kalla sig velferðarstjórn.