139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:39]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér ber að fagna mjög merkilegum tímamótum í opinberri þjónustu á Íslandi. Málefni fatlaðra eru að fara heim í hérað og hefði betur verið gert fyrr því að þetta er að sjálfsögðu afskaplega mikilvæg nærþjónusta og á heima hjá fólkinu í sveitarfélögunum, ekki hjá miðstýringarvaldinu í Reykjavík. Þetta er viðkvæm þjónusta og varfærin og þess vegna vonast sá sem hér stendur til að ríki og sveitarfélög gangi frá samningsborðinu stolt og ánægð með sitt verk og að nægum fjármunum verði varið til þessa málaflokks í þeim samningum. Það má ekki deila hér um mannanna verk.