139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Í nokkuð langan tíma hefur það legið fyrir að málefni fatlaðra flytjast um næstu áramót yfir til sveitarfélaganna. Það er brýnt að það verkefni takist vel, enda tel ég að Akureyrarmódelið sýni að þessum málaflokki er betur fyrir komið hjá sveitarfélögunum. Það er hins vegar ákveðið undrunarefni miðað við skýrslu Ríkisendurskoðunar hversu mjög félagsmálaráðherrar síðustu missira undir forustu Samfylkingar hafa dregið lappirnar við undirbúning þessa máls.

Nú er málið hins vegar komið á skrið í þinginu og þá er mikilvægt að við, þingmenn á Alþingi Íslendinga, tökum höndum saman um að færa þennan málaflokk þannig að það verði vel úr garði gert. Þessi málaflokkur má ekki verða bitbein stjórnmálamanna heldur verði honum komið yfir til sveitarfélaga sem að mínu mati munu sinna þessu vel miðað við þá reynslu sem við höfum að norðan.