139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:43]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Í þessari fagurgrænu atkvæðatöflu birtist m.a. fagurgrænn stuðningur okkar framsóknarmanna við tilflutning á málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna. Þeim stuðningi verða þó að fylgja bæði viðvörunarorð og nokkur gagnrýnisorð.

Ég gagnrýni það eins og aðrir sem hafa gert grein fyrir atkvæði sínu hversu seint frumvarpið er fram komið. Það er enn þá til meðhöndlunar í hv. félags- og tryggingamálanefnd með ýmsum álitamálum. Fjölmargar athugasemdir hafa borist frá notendum þjónustunnar, sveitarfélögum og öðrum. Það er óviðunandi en við munum samt auðvitað klára þetta, enda er þetta mjög mikilvægt mál. Svo verða þessum stuðningi líka að fylgja viðvörunarorð vegna þess að margt bendir til þess að auðvitað sé verið að færa of lítið fé yfir til sveitarfélaganna svo þau geti sinnt þessum málaflokki almennilega. Ég vil sérstaklega nefna stofnkostnað í þessu sambandi. Margt bendir til að sveitarfélög sem mörg hver eiga í miklum fjárhagslegum vanda muni ekki geta sinnt nauðsynlegum stofnkostnaði til að sinna þessum málaflokki almennilega.