139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:53]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Á þskj. 414, liðum 77–103, eru framlög til heilbrigðisstofnana leiðrétt. Þetta eru, vonandi, erfiðustu fjárlög okkar tíma sem við erum að vinna hér, hin eiginlegu hrunfjárlög, en ef þau verða samþykkt geta þau gert þau fjárlög sem á eftir koma auðveldari viðfangs.

Ég fagna því sérstaklega að verulega hefur verið dregið úr niðurskurðarkröfu í heilbrigðisþjónustunni. Eins og fram kom reyndar í greinargerð með frumvarpinu sjálfu er ljóst að hún þurfti endurskoðunar við. Sú vinna sem fram hefur farið milli 1. og 2. umr. hefur tekist vonum framar. Niðurskurðarkrafan hefur verið lækkuð úr 5% í 3%, þ.e. úr 4,7 milljörðum kr. niður í 3 milljarða kr. Þetta má telja góðan árangur. Ég óska hæstv. heilbrigðisráðherra hjartanlega til hamingju með hann (Gripið fram í.) og ég styð þessar tillögur meiri hluta fjárlaganefndar heils hugar.