139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:07]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Á Íslandi höfum við búið við mjög góða heilbrigðisþjónustu og munum gera áfram. Ég tel að við getum verið mjög stolt af henni til framtíðar þó að við séum að gera alls konar breytingar núna. Það er hægt að nýta fjármagnið betur. Við munum gera það í stofnanarekstrinum en við þurfum líka að gera aðrar breytingar, m.a. að koma hér á valfrjálsu tilvísanakerfi þannig að við nýtum betur fjármagnið sem fer til sérfræðiþjónustunnar. Að mínu mati er hægt að gera stórkostlega góða hluti í heilbrigðisþjónustunni með kerfisbreytingum. Það þarf hins vegar pólitískan kjark til að koma þessum breytingum á.

Það var hægt að velja þá leið að skera flatt og það hefði kannski verið léttast fyrir ríkisstjórnina. Að mínu mati hefði sú leið ekki verið góð. Það hefði ekki verið gott að skera flatt. Þá er betra að reyna að forgangsraða og það hefur verið reynt. Það hefur hins vegar verið gengið allt of bratt fram. Nú er búið að draga það að talsverðu leyti til baka og engin stofnun fær meiri niðurskurð en 12% nema St. Jósefsspítali sem fær reyndar tæplega 40%. (Forseti hringir.) Eins og málum er fyrir komið núna tel ég að við munum geta horft bjartsýn fram á veginn og verðum hér með góða heilbrigðisþjónustu á næsta ári.