139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:13]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég sé ástæðu til að fagna þeim farsælu breytingum sem eru að verða á þessum liðum fjárlaganna og þakka fyrir að hæstv. velferðarráðherra skuli hafa sýnt þann ríka skilning sem hann hefur sýnt á þeirri gagnrýni sem fram kom á fyrstu drög fjárlagafrumvarpsins og þá það hvernig niðurskurðurinn kom niður á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.

Það er hins vegar alveg rétt sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur bent á, við getum ekki skorast undan því að fara í róttækar kerfisbreytingar og heildstæða stefnumótun í málefnum heilbrigðisþjónustunnar. Það mun krefjast kjarks og heildarsýnar vegna þess að, eins og hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir benti líka á, þetta er ekki aðeins velferðarmál heldur byggðamál, atvinnumál og mannréttindamál. (Gripið fram í.)