139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Á sama hátt og við gagnrýnum harðlega það sem við teljum ábótavant í frumvarpinu er það mjög sanngjarnt af okkur framsóknarmönnum, finnst mér, að hrósa því sem vel er gert. Þarna er dregin til baka óskynsamleg niðurskurðarkrafa á sveitarfélög sem mörg hver eiga mjög um sárt að binda, ekki síst þau sveitarfélög sem eru komin á vonarvöl og til eftirlitsnefndar sveitarfélaga. Þess vegna vildi ég hrósa fyrir þetta framtak. Það er hins vegar afar mikilvægt að til framtíðar verði komið á fastri reglu í fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Þetta eru jafningjar í opinberri stjórnsýslu, tvö stig sem eiga að koma fram hvort við annað sem tveir bræður eða tvær systur.