139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að eftir fjölmörg ár sé loksins farið að ræða það í þingsal að flytja málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaga. Hins vegar er mjög gagnrýnivert hversu seint frumvarpið kemur inn í þingið. Ég sit hjá við þessa atkvæðagreiðslu vegna þess að ég tel ekki ljóst að þingið hafi farið nægjanlega gaumgæfilega yfir þetta frumvarp. Við ætluðum okkur að draga lærdóm af þeirri reynslu sem undanfarin ár hafa fært okkur um stjórnsýsluna og vinnubrögð Alþingis. Við verðum að gefa þingnefndunum færi á því að vinna mál almennilega, kynna sér þau að fullu, og að mínu mati er ekki enn útséð með það hvort hv. félags- og tryggingamálanefnd fái nægilegan tíma og svigrúm til að sinna þessu máli með þeim hætti sem nauðsynlegt er í þessum stóra og viðamikla málaflokki sem er gríðarlega mikilvægur. Það er gott að til standi að færa hann til sveitarfélaganna, hins vegar megum við ekki gleyma því að vera samkvæm (Forseti hringir.) sjálfum okkur og vanda okkur.