139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:43]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég get ekki stutt þennan lið þar sem ég er alfarið mótfallin því að þessi stofnun verði búin til. Ég tel það fyllilega óþarft og ég tel ekki góða ráðstöfun á skattfé almenning að búa hana til. Það er hægt að koma þessum verkefnum fyrir hjá þeim stofnunum ríkisins sem þegar eru til staðar og vísa ég þá fyrst og fremst til Þjóðskrár sem heldur utan um mjög mikið efni um fasteignir, gögn fyrir byggingarfulltrúa o.s.frv. Það þarf að endurskoða þetta. Það þarf að fara vel með skattfé almennings á þessum tímum og ég hvet umhverfisnefnd til að fara vel yfir þetta og láta það ekki gerast að við förum þessa dýru leið þegar önnur leið er til staðar.