139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að fagna því að það skuli reynt að rétta hlut náttúrustofanna í landinu. Náttúrustofurnar hafa mátt búa við það, eins og hér hefur komið fram, að berjast stöðugt fyrir fjárveitingum til þessara sérstöku verkefna. Það er auðvitað kominn tími til að við breytum þessu, sérstaklega í ljósi þess að það var samþykkt við afgreiðslu náttúruverndaráætlunar, í fyrra að ég hygg, að ætla náttúrustofunum í fyrsta skipti eðlilegt hlutverk í því að undirbúa og fylgja eftir náttúruverndaráætlunum. Þess vegna er óþolandi fyrir náttúrustofurnar um landið að búa við þessa fjárhagslegu óvissu. Það er eðlilegt að búinn sé til fjárhagslegur rammi af hálfu framkvæmdarvaldsins við framlagningu fjárlagafrumvarpsins sem snýr jafnt að náttúrustofunum og öðrum sambærilegum rannsókna-, þróunar- og vísindastofnunum í landinu.