139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Umræður um fjárlagafrumvarpið á undanförnum vikum og ýmsar yfirlýsingar í dag undirstrika að eitthvert brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála er að gera Ísland að einu kjördæmi. [Hlátur í þingsal.] Við afgreiðslu á fjárlagafrumvarpi eru það ekki sérhagsmunir sem eiga að ráða, því að hagsmunir Íslands og Íslendinga eru einir og samir. [Kliður í þingsal.] Þeir speglast í þessum lið þar sem við greiðum 73.600 millj. kr. í vexti og þess vegna eru það hagsmunir Íslands að skera niður útgjöld og hækka tekjur til að stöðva glórulausan hallarekstur sem veldur því að við hendum tugum þúsunda milljóna út um gluggann í vexti sem engum nýtast til margra þeirra góðu verka sem við vildum gjarnan hafa efni á. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)