139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:01]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Helga Hjörvar um að stoppa glórulausan hallarekstur ríkissjóðs. Ég bendi á að á síðasta ári var áætlað að við mundum greiða um 94 milljarða kr. í vexti. Sú tala breyttist um 24 milljarða kr., fór niður í 70 milljarða kr., en það var skýrt þannig að ónákvæmni hefði gætt í áætlanagerð fjármálaráðuneytisins.

Ég vek athygli á því um hve gríðarlega háar tölur er hér að ræða og jafnvel þó að liðurinn hafi hækkað um 1,4 milljarða kr. er það í rauninni stór hluti af þeim niðurskurði sem á að taka í heilbrigðiskerfinu.

Ég fagna því hins vegar að hluti breytinganna frá því á þessu ári er skýrður með því að við erum að taka minni lán frá samstarfsþjóðum í efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er það sem við framsóknarmenn höfum talað fyrir, okkur þótti óráðlegt á sínum tíma (Forseti hringir.) að taka um 600 milljarða kr. að láni en ég hvet fjármálaráðuneytið og ríkisstjórnina (Forseti hringir.) til að skýra þennan lið betur vegna þess að hann hefur áhrif á allt það sem við erum (Forseti hringir.) að vinna að í fjárlagagerðinni.