139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

verðbréfaviðskipti bankanna.

[10:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Eins og hv. þingmanni er kunnugt og þingmönnum þá var sú yfirlýsing gefin út strax haustið 2008 að allar innstæður í íslenskum bönkum, sparisjóðum og fjármálafyrirtækjum, þ.e. öll innlán, yrðu tryggðar og við þá yfirlýsingu hefur verið staðið. Það var gert þegar stóru bankarnir féllu og það hefur verið gert þegar minni fjármálastofnanir hafa komist í þrot í kjölfarið. Þá var þetta gert á grundvelli neyðarlaganna þannig að innstæðurnar eru færðar, annaðhvort yfir í nýja banka eða yfir til annars aðila, og eignir eftir því sem þær eru til staðar í búunum á móti. Það er alveg ljóst að í sumum tilvikum eru áhöld um hvort eignirnar nægi á móti skuldbindingunum og ríkið verður þá að taka þá áhættu sem því er samfara. Hún er vonandi ekki mikil í þessum tilvikum. Það er kannski fyrst og fremst ein innlánsstofnun sem hefur komist í þrot þar sem nokkuð ljóst er að svo illa var komið að eignirnar í heild sinni dugðu ekki á móti innlánum. Þá er alveg ljóst að myndast getur mismunur sem fyrst og fremst kemur fram í aukinni þörf fyrir eigið fé til að hin nýja stofnun, eða sá sem við innlánunum tók, verði ekki fyrir skakkaföllum af þeim sökum.

Umfang þessara mála er að sjálfsögðu allt annað og miklu minna en átti við þegar stóru bankarnir féllu og sem betur fer yfirleitt nægilegar eignir á móti til að tryggja innstæðurnar. En þegar um það er samið í einstökum tilvikum, eins og þeim tveim sem hv. þingmaður nefndi, að þriðja aðila er falin umsýsla innstæðnanna er ekki við því að búast að hann geri það öðruvísi en honum sé veitt skaðleysi eða að það sé tryggt að því fylgi ekki bein töp. Og þá leiðir það einfaldlega af yfirlýsingunni um að tryggja allar innstæður sem ríkið hefur gefið, bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn, að það er þá ríkið sem verður að standa þar á bak við. Framtíðin ein getur skorið úr því nákvæmlega hvernig þetta uppgjör verður en við gerum ekki ráð fyrir að þarna verði um nein umtalsverð töp að ræða.