139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

verðbréfaviðskipti bankanna.

[10:55]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svörin. Þetta mál er enn galopið og gríðarlegar fjárhæðir í spilinu, 140 milljarðar kr. sem að hluta til eða jafnvel stórum hluta geta fallið á ríkissjóð ef eignir þrotabúa SPRON og Straums – Burðráss duga ekki til. Það er vísað í neyðarlögin varðandi þetta og ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað er í mörg ár hægt að vísa í neyðarlögin til að velta auknum ábyrgðum yfir á skattgreiðendur? Minnisstætt mál er um Sjóvá sem ríkið setti 12 milljarða í fyrir ekki mjög löngu og eru nú sennilega að stórum hluta tapaðir.

Í fjárlagafrumvarpinu er 75 milljarða kr. útgjaldaliður vaxta af skuldum ríkissjóðs sem að mestu leyti eru til komnar vegna ábyrgðar ríkisins á föllnu bankakerfi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hve lengi ætlum við að halda áfram á þessari braut?