139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

niðurstaða loftslagsráðstefnu í Mexíkó.

[10:58]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það hefur ekki gengið þrautalaust fyrir ríki heims að komast að bindandi samkomulagi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda svo hægt sé að koma í veg fyrir hnattræna hlýnun og stórkostlegar hamfarir á jörðinni. En það birtir til í þessu og á 16. aðildarríkjaþingi loftslagssamningsins í Mexíkó sem var að ljúka voru tekin skref í rétta átt, m.a. settur á stofn loftslagssjóður til að aðstoða fátæk ríki við að laga sig að þeim breytingum sem nú þegar eru að verða vegna loftslagsbreytinga og síðan einnig að setja af stað kerfi til að flýta fyrir og auðvelda þróun og tilfærslu og loftslagsvænni tækni sem í felast mikil tækifæri, bæði fyrir þá sem búa yfir tækninni og fyrir þá sem síðan geta nýtt sér hana.

Síðast en ekki síst náðist viðurkenning á tillögu Íslands um að það verði að almennri aðgerð í loftslagsmálunum að tekið sé tillit til bindingar í votlendi. Fyrir þá sem ekki þekkja til hefur hingað til verið tekið tillit til m.a. bindingar í skógrækt með ýmsum hætti og reynt að efla hana og að sjálfsögðu halda við regnskógum um allan heim en þetta hefur verið gert núna og skiptir miklu máli. Það er ekki síst fyrir þrotlausa vinnu íslenskra vísindamanna, vísindamanna í Landbúnaðarháskólanum og hjá Landgræðslunni, embættismanna og að auki nokkurra hæstv. ráðherra úr nokkrum stjórnmálaflokkum sem þetta hefur tekist.

Ég kem hingað ekki bara til að vekja athygli á þessum góðu fréttum heldur líka til að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvernig það muni hafa áhrif á (Forseti hringir.) aðgerðaáætlun Íslands um samdrátt í gróðurhúsalofttegundum.