139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

niðurstaða loftslagsráðstefnu í Mexíkó.

[11:03]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er auðvitað við hæfi að þessi tillaga skuli hafa fengið brautargengi, votlendistillagan svokallaða, réttum 40 árum eftir að nóbelsskáldið skrifaði greinina um hernaðinn gegn landinu og vakti athygli lands og lýðs á því að það væri betra að moka ofan í skurði en upp úr þeim og það væri betra að halda votlendinu óröskuðu því að í því fælust meiri gæði og meiri náttúruvernd en í flestum öðrum aðgerðum sem hægt er að grípa til hér á landi. Þannig vill það til, þannig eru aðstæður hjá okkur.

Ég vil enn og aftur óska hæstv. ráðherra til hamingju með þennan áfanga, og okkur öllum. Hann er miklum mun mikilvægari, held ég, en flestir gera sér grein fyrir í amstri dagsins. Vonandi tekst ríkjum heims að komast að endanlegu bindandi samkomulagi í Suður-Afríku á næsta ári og þá verður stórt skref (Forseti hringir.) stigið fram á við í þessum málum.