139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

menningar- og heilsutengd ferðaþjónusta á höfuðborgarsvæðinu.

207. mál
[11:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir fyrirspurnina en líka hæstv. ráðherra fyrir greinargott svar. Ég fagna því sérstaklega að hún skuli gera sér grein fyrir að það þarf einmitt að fara í þetta viðfangsefni eða vandamál, eftir því hvernig maður lítur á fyrirspurnina. Líta verður heildstætt á landið en ekki eingöngu landsbyggðina Ég held að það skipti mjög miklu máli. Svo vill til að hv. fyrirspyrjandi og hæstv. ráðherra eru báðar úr Suðvesturkjördæmi og það er oft eins og það kjördæmi og bæirnir í kringum borgina líði fyrir nálægðina við borgina.

Menn hafa rætt fjárlagafrumvarpið. Það liggur ljóst fyrir að höfuðborgarsvæðið og ekki síst suðvesturhornið, þegar litið er til fjárframlaga til ýmissa verkefna, hvort sem það eru vegaframkvæmdir eða framlög til heilbrigðismála, fær mun minni framlög til t.d. vegaframkvæmda en annars staðar á landinu (Forseti hringir.) svo dæmi sé tekið. En ég fagna því að hæstv. ráðherra ætli að einhenda sér í málið og laga það sem aflaga hefur farið í þessu fyrirkomulagi.