139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

orka í jörð í Þingeyjarsýslum.

232. mál
[11:30]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar góðu umræður og þörfu. Þingeyingar þurfa svo sannarlega á því að halda að hugað sé að atvinnuuppbyggingu hjá þeim því að þar er talsvert atvinnuleysi. En við verðum að sjálfsögðu að gera það í góðri sátt við náttúruna. Ef við förum of geyst þar verða hugsanlega unnin þar spjöll sem ekki verða tekin til baka. Það er brýnt í þessu ágæta máli að í góðu samstarfi vísindamanna, Landsvirkjunar og heimamanna sé unnið að því að finna farsæla nýtingu á þeirri orku sem er til staðar. Hugsanlegt er að byggja upp stórt fyrirtæki í þrepum eða þannig að sú orka sem til staðar er verði nýtt núna og svo geta ný fyrirtæki hugsanlega fengið tækifæri til að nýta orkuna. En fyrst og fremst eigum við að hugsa þetta með hagsmuni Þingeyinga að leiðarljósi.