139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

orka í jörð í Þingeyjarsýslum.

232. mál
[11:32]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil nota tækifærið til að hvetja hv. þingmenn til að kynna sér ítarlegt mat á umhverfisáhrifum allra orkuframkvæmda í Þingeyjarsýslunum og reyndar líka á umhverfisáhrifum hugsanlegs álvers við Bakka. Þar eru mjög merkilegar og fróðlegar niðurstöður. Hafi menn verið í einhverjum vafa um að varlega ætti að fara þá eyðist sá vafi við þann lestur.

Ég vil líka vekja athygli á því að nýir stjórnendur og stjórn Landsvirkjunar hafa tekið allt annan pól í hæðina hvað varðar orkunýtingu á þessu svæði en áður hefur verið gert. Það hefur kannski ekki farið mikið fyrir því í fréttum en það er hins vegar eitt og sér mikið gleðiefni og segir okkur að stjórnendur þessa stóra orkufyrirtækis, sem hafa til umráða rúmlega 90% orkunnar þarna, ef ég skil rétt, munu fara varlega og þá aðeins með sjálfbæra notkun orkunnar í huga.