139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins.

231. mál
[11:43]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu, bæði fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra. Ég vona svo sannarlega að svar hæstv. ráðherra verði óbreytt um langan aldur og ekki komi til greina að flytja aðalskrifstofu Skógræktar ríkisins neitt annað. Ég veit ekki hversu margir vita um þá góðu starfsemi sem þar fer fram. Þar fer mikil rannsóknarstarfsemi fram, þar stunda meistaranemar og doktorsnemar miklar og góðar rannsóknir með viðfangið við skrifstofudyrnar sem er afar mikilvægt. Mjög hátt hlutfall þeirra sem fara í háskólanám fer í nám á þessu sviði vegna þess að nemendur vita að þeir geta flutt heim aftur og fengið störf við hæfi.

Þess utan hefur hin mikla handverkshefð sem er á Fljótsdalshéraði líka blómstrað þarna í mjög spennandi og skemmtilegum verkefnum þar sem þekkingarnetið, Vísindagarðurinn, Nýsköpunarmiðstöðin og fyrirtæki eins og Epal hafa tekið höndum saman um mjög spennandi vöruhönnun þar sem skógurinn er nýttur. Ég vona því svo sannarlega að við fáum að halda áfram þeirri góðu vinnu sem þarna er hafin.