139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

eftirlit með loftgæðum.

271. mál
[11:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Eins og alþjóð veit urðu miklar náttúruhamfarir á Suðurlandi sl. vor þegar Eyjafjallajökull gaus. Nú þegar gosi er lokið og viðbúnaðarstig hefur verið fært niður glímum við enn við afleiðingar þess. Eitt af því sem við er að eiga er loftmengun. Enn er umtalsvert öskufok suma daga sem gerir fólki á svæðinu lífið erfiðara og vekur spurningar varðandi heilsufar manna.

Það er mikilvægt að fylgjast vel með og mæla svifryk í lofti. Mig langar að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra hvernig eftirliti með loftgæðum á helsta áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli sé háttað og jafnframt hvort fyrirhugaðar séu einhverjar breytingar á þessu eftirliti í kjölfar fyrri reynslu sem við þegar höfum haft af eldgosinu.

Ég tel að mjög mikilvægt sé að ekki bara að vernda íbúana á svæðinu heldur einnig að skrásetja það sem þarna fer fram fyrir komandi kynslóðir. Nú vitum við að Eyjafjallajökull getur gosið og mun væntanlega gera það aftur í framtíðinni. Það sem heimamenn hafa gert til að reyna að læra af reynslu fyrri kynslóða er að lesa þær frásagnir sem til eru af fyrra gosi. Það er mikilvægt að við skrásetjum frásagnirnar nú.

Svifryksmælar hafa verið settir upp en hins vegar skortir á að slíkur mælir sé til staðar á helsta áhrifasvæðinu, þ.e. á því svæði sem varð fyrir mestri mengun á sínum tíma og á enn við afleiðingar hennar að stríða. Efnið kemur upp úr árfarvegunum og hreyfist um leið og vind hreyfir og mér skilst að síðast á föstudag fyrir rúmri viku hafi verið mjög slæmt skyggni á þessu svæði, þ.e. svæðinu við Svaðbælisá og þar um kring. Það er rétt að Umhverfisstofnun haldi vel utan um þessi mál og ég spyr því hæstv. ráðherra hvort til standi að hafa mæli á þessum slóðum undir Eyjafjöllum til að tryggja að menn viti hvað þar er að gerast og fylgjast með því hvort skaðleg áhrif á heilsufar manna séu hugsanleg.