139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

eftirlit með loftgæðum.

271. mál
[11:53]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnina. Það er auðvitað svo að öll úrvinnsla og eftirmál eldgossins í Eyjafjallajökli eru hvergi nærri komin á endastöð. Við þurfum að halda vöku okkar og engin endanleg niðurstaða er komin um hvernig best er að bregðast við. Við söfnum upplýsingum og þekkingu eins og málinu vindur fram og það er gríðarlega krefjandi og mikið álag á íbúa svæðisins af þeim sökum.

Við höfum, þ.e. Umhverfisstofnun, allt frá upphafi gossins í Eyjafjallajökli lagt áherslu á að mæla eftir fremsta megni styrk svifryksins á svæðum sem hafa orðið fyrir öskufalli í nágrenni jökulsins og einnig hefur stofnunin mælt tilteknar gastegundir á áhrifasvæðinu.

Staðan er þannig nú í kjölfar eldsumbrotanna í Eyjafjallajökli sl. vor að ríkisstjórnin ákvað að tillögu ráðuneytisins að veita fé til Umhverfisstofnunar í því skyni að kaupa mælistöð til að vakta loftgæði á svæðinu. Um þessar mundir er svifryk mælt með þessari nýju mælistöð og er hún staðsett á Hvolsvelli eins og kom fram í máli þingmannsins. Mælistöðin er þar vegna þess að þar býr fleira fólk en undir Eyjafjöllum og þar er starfræktur bæði grunn- og leikskóli. Hins vegar er verið að endurskoða staðsetningu mælistöðvarinnar í ljósi fjölmargra ábendinga frá íbúum sem nú búa undir Eyjafjallajökli.

Strax og fréttir bárust af öskufalli í byggð ákvað Umhverfisstofnun að hefja mælingar á áhrifasvæði eldgossins en fyrstu mælistöðinni var komið fyrir tveimur dögum síðar. Einnig fór stofnunin í að útvega fleiri lánsstöðvar til mælinga. Stöð í eigu Umhverfisstofnunar sem staðsett er á Akureyri var fengin að láni til Víkur og Kirkjubæjarklausturs í apríl og var notuð til að mæla svifryk. Stöðvar frá umhverfissviði Reykjavíkur og önnur í eigu Kópavogsbæjar voru staðsettar annars vegar á Hvolsvelli og hins vegar á Heimalandi og voru notaðar frá apríl og fram í júlí til að mæla svifryk, köfnunarefnisoxíð, brennisteinsvetni og brennisteinsdíoxíð. Þá var nýja stöðin sem keypt var sett upp við Raufarfell í júlí og fram í ágúst. Síðan í september hefur sú stöð verið staðsett á Hvolsvelli og verið notuð til að mæla svifryk.

Um það bil mánuði eftir að gosi lauk var mælistöðvum skilað til Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar sem höfðu lánað þær endurgjaldslaust. Unnin voru skemmdarverk á stöðinni sem Akureyrarbær lánaði til Víkur þann 4. september og var stöðin því flutt til Reykjavíkur til viðgerðar. Eftir viðgerð og prófanir var það metið svo að öskufok yrði minna þegar vetur gengi í garð, sérstaklega eftir fyrstu snjóa. Því var ákveðið að setja stöðina aftur upp á Akureyri a.m.k. í vetur. Rökin fyrir því voru að búast mætti við háum toppum svifryks á Akureyri í vetur en á gossvæðunum yrði öskufok trúlega minna vandamál þegar vetur gengi í garð.

Hv. þingmaður spyr hvort einhverjar breytingar séu fyrirhugaðar á eftirliti með loftgæðum í kjölfar reynslunnar af eldgosum. Því er til að svara að ekki eru fyrirhugaðar stórbreytingar á eftirlitinu í vetur en til skoðunar er að flytja mælinn á Akureyri aftur inn á áhrifasvæði eldgossins snemma í vor. Eins og fram hefur komið er staðsetning mælistöðvar á Hvolsvelli einnig til endurskoðunar í ljósi ábendinga frá íbúum undir Eyjafjallajökli. Ég vil árétta það sem kom fram í upphafi svars míns að það er auðvitað ekki til neitt sem heitir endanleg ákvörðun í þessum efnum heldur verður að bregðast við jafnharðan og vera í góðu sambandi við íbúa. Það hefur Umhverfisstofnun viljað gera og hefur samkvæmt mínum upplýsingum haldið fundi með íbúum í því skyni.