139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

eftirlit með loftgæðum.

271. mál
[11:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör en mig langar að það komi skýrt fram að ég tel mjög mikilvægt að áfram verði fylgst með loftgæðum á Hvolsvelli vegna þess að þar finna menn enn fyrir áhrifum öskufoks. Ég tel því lausnina ekki vera að flytja þá stöð til heldur eigi að fá aðra stöð til að fylgjast með loftgæðum undir Eyjafjöllum. Ekki eru miklar vegalengdir þarna á milli og það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á hvað er þarna á seyði vegna þess að þarna fer svifryksmengunin langt upp yfir það sem gerist í þéttbýli. Allir hljóta að skilja að íbúar á höfuðborgarsvæðinu mundu ekki sætta sig við að hafa ekki upplýsingar um mengun eins og hún er á þessu svæði og ég tel að íbúar undir Eyjafjöllum sem og á Hvolsvelli og í Vík sem búa við þessar aðstæður eigi heldur ekki að þurfa að sætta sig við það, svo það sé skýrt tekið fram.

Mig langar jafnframt að beina þeirri fyrirspurn til ráðherra hvort skoðað hafi verið að setja í lög eða reglugerð einhverjar viðmiðanir um það hvenær svifryksmengun verður það mikil að ekki sé æskilegt að menn séu staddir á viðkomandi svæði. Stundum eru gefnar viðvaranir á höfuðborgarsvæðinu, heyri ég. Þær tölur sem um er að ræða á höfuðborgarsvæðinu eru langt fyrir neðan það sem menn hafa búið við fyrir austan. Ég tel að einn af lærdómunum sem við þurfum að fara vel yfir í kjölfar gossins sé hvort og þá með hvaða hætti setja eigi einhverjar heimildir til heilbrigðisyfirvalda eða þá Umhverfisstofnunar um að gefa út tilmæli um að menn skuli ekki vera á ferð á ákveðnum svæðum. Ég tel að þetta sé eitt af því sem við þurfum að ræða. Þetta er erfitt viðfangsefni. Menn vilja að sjálfsögðu fá að ráða sér sjálfir en hins vegar sáum við það þegar ástandið undir Eyjafjöllum hafði verið viðvarandi lengi og menn orðnir þreyttir að hugsanlegu hefðu þurft að vera til skýrari viðmiðanir.