139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

aukin verkefni eftirlitsstofnana.

240. mál
[12:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirgripsmikið og gott svar og jafnframt hrósa honum fyrir þá pólitísku stefnuyfirlýsingu sem falist hefur í verkefnum skattsins. Það er til mikillar fyrirmyndar hvernig fjármálaráðherra og hans fólk hefur beitt sér í því máli. Eðli málsins samkvæmt er hægt að vinna þá vinnu hringinn í kringum landið í krafti rafmiðlunar og það starf sem þar hefur farið fram í pólitískri stefnubreytingu er til mikillar fyrirmyndar og vil ég nota tækifærið til að þakka hæstv. ráðherra fyrir það starf allt saman.

Engu að síður má gera betur ef duga skal og þar vísa ég enn og aftur til þessa bréfs Heilbrigðiseftirlits Austurlands. Ég tel að í ljósi ríkisfjármála eigi að leita allra leiða til að haga opinberri stjórnsýslu með sem hagkvæmustum hætti. Ég tel að færsla verkefna heim í hérað, svo sem eins og hvað eftirlitsþættina varðar, sé mjög til þess fallin að fara betur með fjármuni ríkisins. Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra enn og aftur að hans pólitísku sýn í þessu máli, hvernig ríkisvaldið getur í auknum mæli beitt sér í þessu máli til að betur sé farið með fjármuni ríkisins — ég endurtek að ég tel að það sé hægt að gera með því að færa þessi verkefni út til eftirlitsstofnana sem eru fyrir heima í héraði.