139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

sameining lífeyrissjóða.

241. mál
[12:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Málefni lífeyrissjóðanna hafa mjög verið til umræðu á undanliðnum vikum og mánuðum, ekki síst eftir að efnahagshrunið reið yfir landsmenn. Mjög hefur verið deilt á íslenska lífeyrissjóði eftir það gríðarlega áfall sem þjóðin varð fyrir. Það hefur ekki einungis verið deilt um hvernig sjóðirnir hafa ávaxtað sitt pund heldur hefur og verið deilt á ýmsa umsýslu þessara lífeyrissjóða, innra starf þeirra, launagreiðslur til forsvarsmanna og þá yfirbyggingu sem þar hefur verið við lýði. Auk þess þarf varla að taka fram að mjög hefur verið deilt á lífeyrissjóðina fyrir ákveðinn lýðræðishalla, ef svo má segja, enda alkunna að fáir hafa mætt á aðalfundi þessara félaga og sjóða. Allar ákvarðanir hafa þar af leiðandi verið teknar af tiltölulega fáum miðað við þann gríðarlega fjölda sem á mikið undir þessum sjóðum sem að mínu viti eru fyrst og síðast félagslegir og á að reka sem slíka en ekki eins og einkareknar viðskiptastofnanir eins og sumir vilja vera láta að sé einmitt tilfellið.

Eins hefur það verið mjög í umræðunni á undanliðnum vikum hvort fækka beri þessum lífeyrissjóðum. Í fyrirspurninni sem hér er sett fram er spurningin einfaldlega í þá veru hvort fækka eigi þeim niður í einn. Margir telja það óvarlegt enda öll eggin þá í einni körfu og það beri að dreifa ábyrgðinni. Spurningin hlýtur samt sem áður að vera sú hvort þeim beri að fækka að mun, jafnvel niður í 2–3, til að auka hagræði og fækka þeim silkihúfum sem lífeyrissjóðakerfið hefur getið af sér á undanförnum árum.

Hér er vitaskuld mikið í húfi og margir landsmenn, ef ekki allir, horfa til þessara sjóða sem sinna sjóða þrátt fyrir að þeir séu kannski reknir í skjóli fámennra stjórna og aðalfunda sem lítil sem engin þátttaka er í. Ég ber því þá spurningu fram til svars af hálfu fjármálaráðherra hvort hann telji að það eigi að fækka þessum sjóðum og hvort ríkisvaldið sé yfir höfuð í einhverjum færum til að aðhafast eitthvað í þeim efnum.