139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

sameining lífeyrissjóða.

241. mál
[12:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Lífeyrissjóðirnir eru að sjálfsögðu ekki yfir gagnrýni hafnir og þeir hafa auðvitað fengið sinn skammt af henni. Þeir urðu fyrir þó nokkru höggi í hruninu en þess ber þó að geta sem vel er, sem betur fer stendur kerfið eftir án verulegrar löskunar og hefur langleiðina náð þeim styrk sem það hafði fyrir hrunið, á nálægt 120% af vergri landsframleiðslu í hreinum eignum til greiðslu lífeyris. Það var okkur Íslendingum mikil gæfa að við rötuðum inn á það spor á sínum tíma að byggja upp lífeyri í söfnunarkerfi, og enginn minnsti vafi á því í mínum huga hvað sem segja má svo um starfshætti og fyrirkomulag lífeyrissjóða.

Staða málsins núna er sú að það er að störfum nefnd sem var skipuð á öndverðu þessu ári. Þar eiga sæti öll helstu samtök launamanna, auk fulltrúa frá sveitarfélögum, efnahags- og viðskiptaráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Hlutverk þessarar nefndar er að fara yfir lífeyrisfyrirkomulagið á mjög breiðum grunni, ræða kosti og galla núverandi fyrirkomulags, safna saman öllum hugmyndum og setja fram valkosti og tillögur um framtíðarsýn. Þarna er mikið undir, þar á meðal og ekki síst sambúð kerfanna, almenna kerfisins og opinbera kerfisins. Við þekkjum þann núning, svo kurteislega sé að því vikið sem þar er og hefur verið á milli. Ég tel ekki tímabært að draga upp persónulegar skoðanir mínar á nákvæmlega hvernig þessu eigi að linna, en það er þó í mínum huga alveg ljóst að framtíðin hlýtur að eiga að bera það í sér að réttindin verði sem jöfnust, þó ekki þannig að réttur manna til að semja sérstaklega um kjör tengd þessu sé af þeim tekinn en einhvers konar samræmdari grunnréttindi allra en nú er sem og að kerfin verði sjálfbær. Það hljóta að vera meginleiðarljósin sem við förum í. Rekstrarkostnaðurinn og fjöldi eininga skiptir þá að sjálfsögðu máli en ég er ekki tilbúinn til að lýsa því yfir á þessu stigi að það sé endilega skynsamlegt að setja stefnuna á einn lífeyrissjóð allra landsmanna. Það gæti aldrei orðið að veruleika fyrr en mjög margt hefði gerst á undan, samanber núverandi stöðu kerfanna, auk þess sem í einhverjum mæli er þetta í höndum þeirra sem í hlut eiga. Lífeyrissjóðunum hefur fækkað umtalsvert og það hefur fækkað mjög litlum sjóðum sem ég held að sé tvímælalaust til bóta, bæði vegna þess að þær einingar eru að breyttu breytanda óhagkvæmar í rekstri og þar er kannski áhættudreifingin minni en hægt er að gera í stærri og öflugri sjóðum.

Lífeyrissjóðirnir eru sjálfir með sín mál til skoðunar. Þeir skipuðu nefnd til að rannsaka sig og sína starfshætti og ég held að það sé líka gott að fá þær niðurstöður fram, hvað lífeyrissjóðirnir sjálfir og forsvarsmenn þeirra telja að betur megi fara og hugmyndir um reglur, áhættudreifingu, stjórnarfyrirkomulag og þess vegna hvernig farið er með laun, þóknanir og annað slíkt. Líka er vert að sjá hvaða viðhorf menn hafa til rekstursins, fjölda og stærðar eininga. Að sjálfsögðu getur löggjafinn stýrt þessu á vissan hátt með skilyrðum og reglum sem lífeyrissjóðum er gert að fara eftir. Ef menn hefðu þá sannfæringu að það ætti að færa þetta saman í miklu færri og miklu stærri sjóði er út af fyrir sig væntanlega hægt að gera það með reglusetningu sem sjálfkrafa kallar á sameiningu en þá er orðið stutt í að sú sameining sé lögþvinguð. Við þekkjum þessa umræðu líka í sambandi við sameiningu sveitarfélaga og gjarnan hefur það verið viðhorf mitt og minna að við höfum frekar kosið að slíkt gerðist á frjálsum grunni, ákvarðanir sem menn tækju sjálfir, en það þyrfti að vera lögþvingað án þess að slíkt sé endilega útilokað. Einfaldlega er við því að búast að þá verði betra andrúmsloft og menn áhugasamari og viljugri í þær breytingar ef þeir komast sjálfir að niðurstöðu um að það sé skynsamlegt að gera.

Allra síðast verður svo ekki fram hjá því horft að það væri gríðarlega mikil samþjöppun á fjármálalegu valdi og um leið áhættu ef allur lífeyrissparnaður landsmanna væri kominn í einn sjóð. Ég held að maður sæi það seint fyrir sér öðruvísi en að gríðarlega vel yrði þá vandað til verka í sambandi við áhættustýringu, áhættudreifingu og varnir, stjórnunarfyrirkomulag þar og annað í þeim dúr ef við legðum svo mikið undir að færa saman í einn lífeyrissjóð allan framtíðarlífeyrissparnað landsmanna. Þá þyrftu menn að vanda (Forseti hringir.) sig mjög vel.