139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

sameining lífeyrissjóða.

241. mál
[12:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka innlegg hv. þm. Eyglóar Harðardóttur í þessa umræðu og tek undir með henni hvað varðar beina kosningu í stjórnir lífeyrissjóðanna. Það þarf að beita þessa sjóði sem eru mjög mikilvægir í þjóðfélagi okkar ríku aðhaldi eins og aðrar fjármálastofnanir í landinu, ef hægt er að kalla lífeyrissjóðina slíku nafni.

Ég þakka jafnframt hæstv. ráðherra fyrir svarið sem var skeleggt að vanda. Þessi umræða heldur vitaskuld áfram í samfélaginu. Af því að ráðherra svaraði þessari spurningu nokkurn veginn til þrautar langar mig að beina máli mínu til hæstv. ráðherra svolítið um samfélagsábyrgð þessara sjóða eftir að efnahagshrunið reið yfir landsmenn. Mjög hefur verið reynt að fá þá til liðs við ríkisvaldið í framkvæmdum og nokkur árangur unnist að vísu en ekki þegar kemur að lagningu vega og gerð jarðganga, eins og dæmin sanna úr fjölmiðlum síðustu vikna. Þeir hafa ekki tekið vel í hugmyndir ríkisvaldsins. Þeim samningum og viðræðum hefur verið slitið eins og menn þekkja. Ég á erfitt með að átta mig á því af hverju lífeyrissjóðirnir slitu þessum viðræðum vegna þess að þarna er um mjög, að því er virðist, tryggan og traustan samning til framtíðar að ræða, vel yfir ávöxtunarkröfu þessara sjóða. Mig langar að heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þess gjörnings lífeyrissjóðanna að taka ekki þátt í uppbyggingu samfélagsins hvað þetta varðar og hafa þar í huga (Forseti hringir.) samfélagsábyrgð þeirra.