139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

sameining lífeyrissjóða.

241. mál
[12:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Vegna þess að hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og B-deildina held ég sem betur fer að það sem upp á vantar að B-deildin eigi fyrir skuldbindingum sé ekki 500 milljarðar kr. Ætli það sé ekki nær að vera um 340 milljarðar kr. sem eru bókfærðir. Þetta geta menn m.a. séð í tölum Hagstofunnar sem leggur þessa skuldbindingu yfirleitt ofan á skuldir ríkisins og þar af leiðandi (EyH: En …?) eru þær hærri en þær skuldir sem venjulega birtast mönnum í töflum, t.d. í fylgigögnum með fjárlagafrumvarpi. (EyH: En A-deildin?)

Varðandi A-deildina eru þar allt aðrar og miklu lægri fjárhæðir, einhverjir tugir milljarða króna kannski sem segja má að upp á vanti að hún standi undir því sem þegar er á fallið þar.

Í B-deildinni er auðvitað stórt framtíðarverkefni að undirbúa hvernig við tökumst á við þær skuldbindingar. Því miður drógu menn mjög úr inngreiðslum í sjóðinn upp úr árinu 2000. Menn fóru vel af stað og greiddu nokkuð inn á framtíðarskuldbindinguna í 2–3 ár en síðan lækkuðu þær greiðslur einmitt á þeim árum þegar afkoma ríkissjóðs var best sem var auðvitað mjög bagalegt. Á þeim árum hefði verið upplagt að greiða meira inn á þetta.

Engu að síður er þetta ekki stærra en svo, þótt stórt sé, að ef við gætum sem fyrst farið að leggja 7–9 milljarða kr. árlega inn á þetta mundi deildin ráða við skuldbindingar sínar. Hún gerir það án nokkurra framlaga fram til 2022–2024 en eftir það yrði hún auðvitað tóm og það ætlum við ekki að láta gerast, heldur hefja undirbúning að þessu sem fyrst.

Varðandi stjórnarkjör bið ég menn að hafa í huga hvernig lífeyrissjóðirnir urðu til í samningum aðila á vinnumarkaði. Það hefur síðan fylgt þeim í gegnum það stjórnarfyrirkomulag en ég tel koma vel til greina, og ég hef sagt það á fundi með landssamtökum lífeyrissjóða, að þeir skoði a.m.k. þann kost að veita í beinni kosningu einhverjum fulltrúum sjóðfélaga aðild að stjórnunum.

Varðandi samgönguframkvæmdir eru einfaldlega mikil vonbrigði að ekki skyldi nást saman um vaxtakjör. Það var enn óaðgengilegra fyrir ríkið að semja um fasta tiltölulega (Forseti hringir.) vexti sem við töldum of háa í ljósi þess að vextir eru á niðurleið. Við viljum láta þá lækka og það er mikið hagsmunamál fyrir alla, heimili, atvinnulíf og ríkissjóð sem skuldar, að vextirnir fari niður. (Forseti hringir.) Lífeyrissjóðirnir eiga auðvitað að sjá grand sitt í því að vera fullgildir þátttakendur í uppbyggingu samfélagsins. Það mun til lengri tíma litið þjóna þeirra hagsmunum best.