139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

heildarlöggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka.

139. mál
[12:59]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Það er rétt sem kom þar fram að hér á landi hafa ekki verið sett heildarlög um frjáls eða almenn félög heldur setja félögin sér sjálf samþykktir á grundvelli félagafrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar. Ég held að í ljósi þess ákvæðis sé eðlilegt að farið sé varlega með hugmyndir um löggjöf um frjáls félagasamtök, enda er rétturinn til að stofna félag og ráða fyrir því að öllu leyti mikilvægur sem grunnmannréttindi. Annars staðar á Norðurlöndum hefur líka verið farið varlega að þessu leyti.

Það kann hins vegar að gegna öðru um afmarkaða tegund af frjálsum félagasamtökum, þá sérstaklega almannaheillasamtökum af þeim toga sem þingmaðurinn vék sérstaklega að í fyrirspurninni. Með öðrum orðum held ég að mikilvægt sé að afmarka sviðið vel. Ég tel að það kunni að vera skynsamlegt sjónarmið sem réttlæti að setja löggjöf um almannaheillasamtök sem gegna samfélagslegu hlutverki.

Nýverið skilaði nefnd sem skipuð var af forvera mínum í félagsmálaráðuneytinu skýrslu til núverandi hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra um löggjöf um almannaheillasamtök. Var nefndinni falið að meta kosti og galla þess að setja heildarlög um starfsemi almannaheillasamtaka til að skýra réttarstöðu og rekstrarumhverfi. Það var mat þessarar nefndar að þörf væri á að setja sérstök lög um starfsemi almannaheillasamtaka og sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri. Voru færð fyrir því rök í skýrslu nefndarinnar að félagasamtök og sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri sinntu í ákveðnum tilvikum þjónustu samkvæmt samningum við ríki og sveitarfélög og þar sem kröfur um meiri formfestu í viðskiptum hins opinbera og einkaaðila á síðustu áratugum hefðu orðið meiri mætti líta svo á að ein af forsendum áframhaldandi samskipta hins opinbera og almannaheillasamtaka á þessum grunni væri sú að skýrar reglur giltu um rekstrarumhverfi félagasamtakanna.

Nefndin lagði til að kannaðar yrðu tvær leiðir við að setja löggjöf um almannaheillasamtök sem samhæfa þyrfti núgildandi löggjöf um sjálfseignarstofnanir og velti sem sagt upp tveimur mögulegum leiðum. Annar kosturinn var að lög um sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri yrðu endurskoðuð þannig að þau næðu einnig til félagasamtaka í atvinnurekstri og skoðað yrði hvort ekki væri ástæða til að fella lög um sjálfseignarstofnanir eða sjóði sem ekki eru í atvinnurekstri undir sömu lög og hinn kosturinn var sá að ný heildarlög yrðu samin sem næðu til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana þar sem reglur um þessi félagaform yrðu samhæfðar og lög um sjálfseignarstofnanir felld úr gildi.

Í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu höfum við verið að kanna hvernig rétt sé að halda á þessum málum. Eins og fram kom í fyrirspurninni var nefndin sett á fót í félagsmálaráðuneytinu á sínum tíma en félagarétturinn heyrir hins vegar undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið þó svo almannaheillasamtökin starfi auðvitað í nánum tengslum við velferðarþjónustuna og velferðarráðuneytið og sinni verkefnum fyrir það. Ég held að skynsamlegt sé að leita leiða til að setja í lög ákvæði um almannaheillasamtök sem mæli fyrir um réttindi þeirra, þar með talið möguleika þeirra til að njóta sérákvæða hvað varðar skattskyldu og annað slíkt en jafnframt um skyldur þeirra til að hafa opið bókhald, opið reikningshald og opinbera endurskoðun þannig að fólk sem veitir fé til almannaheillasamtaka sé líka tryggt að vel sé með það farið og því sé varið til þess (Forseti hringir.) góða málstaðar sem ætlunin er.