139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

heildarlöggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka.

139. mál
[13:04]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svör hans. Ég held að þetta sé áhugavert og væri ánægjulegt að vinna frumvarpið ef það kæmi inn í þing. Ég held líka að það sé mikilvægt að velta fyrir sér því sem ráðherrann kom inn á hvernig við tryggjum félagafrelsi sem best á Íslandi. Það var þannig í íslenskum lögum að veittar voru skattaívilnanir til gjafa til góðgerðarfélaga sem síðan var afnumið fyrir einum 15 árum síðan. Þar voru ákvæði í skattalöggjöfinni um að fjármálaráðherra setti reglugerð um skilyrði sem félögin sem fengu þessa skatta — ef þú ætlar að gefa eitthvað þá var það skilyrt af fjármálaráðherra. Þetta er eitt af því sem ég tel að sé mikilvægt að við veltum fyrir okkur af því að það hefur verið mikil tregða á Norðurlöndunum að setja lög um frjáls félagasamtök. Ég held að það hafi síðast verið 1911 í Svíþjóð sem lagt var fram frumvarp um að setja sérstaka löggjöf um það. Það fór ekki í gegnum þingið og hefur ekki verið tekið upp síðan.

Það sem skiptir máli er að fjármunirnir sem fara í starfsemina — að ekki sé verið að íþyngja þessum félögum of mikið með löggjöfinni sem hið opinbera setur. Það sé skýrt hvernig við afmörkum þetta og líka tryggt að ef við tökum þá ákvörðun að setja heildarlöggjöf (Forseti hringir.) um starfsemi þessara almannaheillafélaga, að þá reynum við að tryggja að stjórnsýslan eða samstarf þeirra við hið opinbera kosti þau sem allra minnst.