139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

heildarlöggjöf um starfsemi frjálsra félagasamtaka.

139. mál
[13:06]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé æskilegt að hafa almenna löggjöf um þetta efni sem mælir fyrir um með hvaða hætti félögin eigi að njóta sérréttinda. Ég er sjálfur ekki sannfærður um að það eigi endilega að koma til skattfrelsi, framlaga hjá einstaklingum. Mér þykir þó ljóst að félögin eigi að vera skattfrjáls. Mér þykir ljóst að þau ættu að geta nýtt sér innskatt í virðisaukaskatti svo dæmi sé tekið. Hvort tveggja væri mikilvægur stuðningur við þau í rekstri.

Með sama hætti verðum við að verja fólk fyrir falsspámönnum og það sé tryggt að samtök sem starfa með þessum hætti uppfylli eðlilegar kröfur um opið reikningshald, þ.e. að reikningar þeirra séu opinberir og endurskoðaðir og eftir atvikum að Ríkisendurskoðun geti kannað rekstur viðkomandi samtaka. Þetta er ekki síst athugunarefni í þeim tilvikum þar sem samtökin fara með meðferð opinbers valds, samninga um veitingu opinberrar þjónustu með samningum við hið opinbera þar sem dæmi eru um að almannaheillasamtök vinni að meðferðarverkefnum eða öðru slíku á grundvelli samninga við ríkið. Þá þykir mér einsýnt að Ríkisendurskoðun eigi að fá aðgang — geta gert athugasemdir við fjármál þeirra og kannað þau alveg eins og um ríkisstofnun væri að ræða. Aðilar sem standa fyrir fjársöfnunum á þeim forsendum að þeir séu að vinna góð verk, þurfa að standa undir opinberri umræðu um það með hvaða hætti fénu sé varið og að reikningshald sé opið og tryggt. Að ekki sé siglt undir fölsku flaggi.