139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

kostnaðargreining á spítölum.

233. mál
[13:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv heilbrigðisráðherra um breytingarnar sem eru fram undan á heilbrigðisþjónustu landsmanna. Blessunarlega hefur stórtækum breytingum verið hrundið er varðar niðurskurð á heilbrigðisstofnunum hringinn í kringum landið. Því ber að fagna og hrósa hæstv. ráðherra fyrir framlag hans í þá veruna.

Engu að síður er mörgum spurningum í umræðunni ósvarað. Þegar menn ræða almennt um breytingar á heilbrigðisþjónustu þá ber að mati þess sem hér stendur að fara varlega fram í fullri sátt og samvinnu við heimamenn. Þetta er viðkvæm þjónusta og mikilvæg í hverju héraði. Rétturinn til heilsu og heilsueflingar er einn sá dýrmætasti sem landsmenn hafa ef ekki sá dýrmætasti.

Mig langar að ræða um spurninguna hvort fyrir liggi kostnaðargreining sem sýni að það kosti ríkissjóð minna að hafa sjúklinga á stórum spítölum en minni. Því er á þetta minnst að í umræðunni um heilbrigðisþjónustu á landinu hefur skotið upp orðatiltækinu „litlir landspítalar“ víða um land og í umræðunni hefur verið látið að því liggja að stofnanir víða úti á landi séu ofhlaðnar af fjármunum, rúmum og tækjum og því beri að skerða hlut þeirra í framlagi ríkisins hvað fjárlög varðar. Engu að síður liggur fyrir að húsnæðið hringinn í kringum landið er til staðar og tæki og tól. Þá er eðlilegt að spyrja: Er ódýrara að fólk liggi úr sér, nái bata á sjúkrahúsum heima í héraði fremur en að liggja í dýrari rúmum hjá stóru sérhæfðu bráðasjúkrahúsunum? Hefur farið fram rannsókn af hálfu ráðuneytisins á því hvar hagkvæmast sé að hafa sjúklinga sem eru í svokallaðri eftirmeðferð eða lyflækningum? Er hagkvæmara að þeir liggi á stóru spítölunum eða er hagkvæmara að þeir fari heim í hérað og klári meðferð sína þar?