139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

kostnaðargreining á spítölum.

233. mál
[13:20]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Varðandi kostnaðargreiningu er mjög mikilvægt að þeir sem stjórna hafi sem bestar upplýsingar á hverjum tíma varðandi hvað hlutirnir kosta, það segir sig sjálft. Hins vegar hafa spunnist mjög miklar umræður um fjárlagafrumvarpið og ég hef lýst því hér og get lýst því enn að ég tel að það sé betra að gera hlutina eins og við gerum núna, þ.e. að reyna að forgangsraða fremur en að skera flatt. Ég held að það hefði komið mjög illa út í heilbrigðisþjónustunni ef við hefðum skorið flatt.

Stjórnvöld hafa núna reynt að gefa sér ákveðnar forsendur. Ég held að við getum sameinast um þær forsendur, þ.e. að efla heilsugæsluna, hafa grunnþjónustuna í lagi og greiða það sama fyrir rýmin um landið, þó með leiðréttingum miðað við staðbundna hætti. Þetta var lagað í meðförum þingsins, bæði heilbrigðisráðuneytið og Alþingi komu að því, þannig að búið er að laga þetta eitthvað. Ég held að við getum þokkalega vel við unað miðað við stöðuna. Ég held hins vegar að í framtíðinni þurfi að gera miklu stærri (Forseti hringir.) og afdrifaríkari breytingar og mikinn pólitískan kjark þurfi til að fara í þær.