139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

kostnaðargreining á spítölum.

233. mál
[13:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með síðasta ræðumanni að við þurfum vitaskuld að breyta heilbrigðiskerfinu á komandi árum með tilliti til þeirra fjármuna sem við höfum úr að spila Nú er svo komið að endar ná ekki saman í ríkisbúskapnum og því ber að horfa til þessa liðar eins og annarra hvað aðhaldskröfu varðar. Ég er jafnframt sammála hv. þm. Merði Árnasyni að jafn aðgangur landsmanna að heilbrigðisþjónustu er ein af frumforsendum þess að reka samfélagið sem við búum í og hlýtur að vera ofarlega á baugi hverju sinni þegar við ræðum um heilbrigðismálin.

Almennt vil ég segja þetta um heilbrigðismálin að svo stöddu að við getum ekki breytt aðgangi landsmanna að heilbrigðisþjónustu nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem lúta að samgöngumálum. Með bættum samgöngum er vitaskuld hægt að hagræða í heilbrigðismálum t.d. á suðvesturhorninu þar sem við fáum tvöfaldan þjóðveginn milli Selfoss og Reykjavíkur og Keflavíkur og Reykjavíkur og reyndar nýleg göng undir Hvalfjörð upp á Skaga og svo mætti lengi telja. En við breytum ekki landakortinu og við breytum ekki veðurlagi. Þess vegna verðum við að horfa til áframhaldandi reksturs umdæmissjúkrahúsa á Ísafirði, Norðfirði og Vestmannaeyjum. Ég vil jafnframt geta staða eins og Patreksfjarðar, Vopnafjarðar og Seyðisfjarðar þar sem ófærð ríkir oft og tíðum hluta úr ári. Þar eru starfræktar litlar sjúkrastofnanir sem lúta einfaldlega að því lífsspursmáli hvort fólk í háska kemst til læknis eða ekki. Þessu breytum við ekki en það má hagræða. Það verður hvort er að hagræða í framtíðinni í þessum geira eins og öðrum en það þarf að gerast í samræmi við forsendurnar sem einkum lúta að samgöngum og samgönguöryggi.