139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

kostnaðargreining á spítölum.

233. mál
[13:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Spurt er hvort sá sem hér stendur geti ekki gefið yfirlýsingu um að stefnan sem birtist í fjárlagafrumvarpinu hafi verið afturkölluð. Í rauninni finnst mér það ekki vera málið vegna þess að hér er auðvitað unnið eftir lögum frá árinu 2007 sem Alþingi setti. Reynt er líka að fylgja því sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi, að fara ekki í það að skera niður flatt þar sem við erum búin að gera það tvö ár í röð. Nú erum við að fara inn í þriðja og erfiðasta árið og það væri ekki ráðlegt að skera flatt niður þriðja árið í röð. Nú er tækifæri til að reyna að forgangsraða með einhverjum hætti. Það var gert með eins samræmdum hætti og hægt var miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir og eftir miklar viðræður við forstöðumenn og það fólk á milli 1. og 2. umr. fjárlaga sem fór yfir einstaka þætti og skoðaði hlutina. Ég held því að býsna vel hafi tekist til þrátt fyrir að menn geti ekki horft fram hjá því að niðurskurðurinn er gríðarlega erfiður í heildina eins og öll aðlögun íslensks samfélags að þeim tekjum sem við höfum í raunveruleikanum.

Komið hefur fram að það sem skiptir máli til lengri tíma er að reyna að jafna aðganginn að grunnþjónustunni, að heilsugæsluþjónustunni og heilbrigðisþjónustunni eins og hægt er. Réttilega hefur verið bent á að miklu máli skiptir að taka tillit til staðbundinna aðstæðna, fjarlægða og samgöngubóta. Allt þetta verðum við að vanda okkur við og það ætlum við að reyna að gera á hinu nýja ári, fara vel yfir þessa þætti, fylgjast með hvernig framgangurinn verður og reyna að tryggja að hér verði öflug og góð heilbrigðisþjónusta eins og hún hefur verið.