139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

Varnarmálastofnun.

317. mál
[13:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Rétt er að rifja upp tildrögin að því að Varnarmálastofnun var sett á laggirnar. Eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði var ágreiningur um það, ekki síst úr röðum Sjálfstæðisflokksins, og reyndar frá okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem mótmæltum því að það væri gert, við töldum að það hefði verið gert án þess fyrir lægi úttekt á því hvort það væri skynsamleg leið eftir að herinn fór úr landi. Gott og vel. Hún var sett á laggirnar en það var tekin ákvörðun um það við myndun núverandi ríkisstjórnar að þessi starfsemi skyldi lögð af. Í því fólust engin hrossakaup heldur meðvituð pólitísk stefnumörkun hvað þetta snertir.

Ég tel að það hafi verið unnið vel úr þessu máli. Vissulega voru skiptar skoðanir um það og hafa verið og eru, m.a. í verkefnisstjórninni um það hvernig ætti að ráðstafa þessum verkefnum. Ráðherrarnir sem um þetta mál hafa vélað hafa síðan skoðað þau sjónarmið og þeir hafa komist að ákveðinni niðurstöðu sín í milli hvernig verkefnum verður ráðstafað. Ég vil nota tækifærið og hrósa þeim fyrir að hafa gert það í tíma áður en þessar breytingar áttu sér stað. (Forseti hringir.) Ég tel að hagsmunum starfsmanna sé vel fyrir komið, hagsmunir starfsmanna eru tryggðir og ég tel því að það sé vel að þessu máli staðið.