139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

Varnarmálastofnun.

317. mál
[13:36]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það væri vel ef þessi umræða væri hafin til þess að skoða hverjar séu þarfir fyrir loftrýmisgæslu eða varnaræfinguna Norðurvíking eða hvernig eigi að framkvæma varnarskuldbindingar þjóðarinnar, hverjar sem þær eru og hvernig sem ætti nú að framkvæma þær, það væri vel. Það er auðvitað sjálfsagt að hv. þingmenn, m.a. hv. fyrirspyrjandi, hafi eftirlit með framkvæmdarvaldinu og ekki síst í utanríkismálum þar sem framkvæmdarvaldið hefur verið nokkuð einrátt.

Það kemur samt á óvart að eftir allan pirringinn í ræðu hv. þingmanns virðist erindi hennar í ræðustól einkum hafa verið að halda uppi vörn fyrir kjördæmi sitt, halda fram kjördæmishagsmununum af því að það sé verið að fara illa með Suðurnes, sem ríkisstjórnin er sem kunnugt er að leggja í eyði og fjandskapast út í sem verða mál. Þetta er, forseti, eiginlega ekki grunnur undir alvöruumræðu um þessi efni.