139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

Varnarmálastofnun.

317. mál
[13:38]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég hef sem kunnugt er ekki gert athugasemd við niðurlagningu Varnarmálastofnunar eða flutning á verkefnum hennar á aðra staði í ríkiskerfinu. Ég hygg hins vegar að það sé brýnt í þessu ferli að fara vel yfir það. Ég á ekki lengur sæti í hv. utanríkismálanefnd og bið því um þær upplýsingar hér hvaða verkefni það eru nákvæmlega sem Landhelgisgæslan tekur yfir, hvenær og hvernig. Mér er auðvitað ljóst hvaða verkefni verða eftir í utanríkisráðuneytinu og eru hjá ríkislögreglustjóra. Hitt er mér ekki eins ljóst á þessari stundu og því væri gott að fá það skýrt.

Enginn dregur í efa þann mikla sparnað og þá miklu hagræðingu sem þessar breytingar hafa leitt af sér, en ég ætla að vona að hægt sé að fjalla um þessar stofnanir og þessar breytingar og verkefnaskipti án þess að það sé endalaust og alltaf sett í samhengi við staðsetningu með tilliti til þess í hvaða kjördæmi þingmenn sitja.