139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

birting upplýsinga í ævisögu -- leiðrétting ummæla --samspil menntamála og atvinnumála o.fl.

[11:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þráni Bertelssyni fyrir að hefja umræðu um sagnfræðina. Við getum oft lært af því að horfa aðeins til baka þótt við megum heldur ekki festa okkur í fortíðinni. (Utanrrh.: Getum bara verið þar.) Já, það er þar sem hæstv. utanríkisráðherra vill kannski vera, í fortíðinni. Engu að síður er sú þjóðfélagslýsing sem hann var að fjalla um gjörólík því þjóðfélagi sem við búum við í dag.

Við vitum að hér áður og fyrr höfðu stjórnmálaflokkarnir allt aðra möguleika og aðstæður til að fylgjast með því sem var að gerast og hvaða skoðanir menn höfðu, einfaldlega vegna þess að breytingarnar voru miklu minni á þessum tíma. Ég get ekki fallist á það með hv. þingmanni að það sem menn voru að gera á þeim tíma gætu kallast á nokkurn hátt persónunjósnir, að reyna að fylgjast með því sem var að gerast, hvaða skoðanir menn höfðu almennt talað. Það eru auðvitað ekki persónunjósnir. Það var hins vegar viðtekið í stjórnmálaflokkunum á þessum tíma að menn reyndu að fylgjast með og átta sig á því hver staða þeirra væri í einstökum byggðarlögum. Við þekkjum dæmi um það, til að mynda þegar rauði bærinn á Ísafirði féll, þá var talið að svo vel þekktu menn til skoðana einstakra manna að þeir treystu sér nánast til þess fyrir kosningar að spá nákvæmlega fyrir um úrslit kosninganna þá. Þetta er allt saman breytt.

Ég ætla hins vegar að rifja aðeins upp þegar ég kom inn í þingið 1991 ásamt hæstv. utanríkisráðherra. Þá var hér í stigaherberginu heilmikill rekki sem hafði að geyma víxileyðublöð og skuldabréfaeyðublöð frá bönkunum. Þetta var myndbirting þáverandi þjóðfélagsástands. Þá þurftu menn að fara fyrir dyr stjórnmálamanna til að útvega sér fjármagn í bönkunum. (Gripið fram í.)

Sem betur fer breyttum við þjóðfélaginu á þessum tíma (Gripið fram í.) og smám saman tókum við eftir því að blöðin í rekkunum fóru að gulna. Það var ekki lengur þörf á því að koma fyrir dyr stjórnmálamanna til að verða sér úti um (Gripið fram í.) peninga. Þetta er dæmi um þær breytingar sem við gerðum á þjóðfélaginu og það er til góðs því að auðvitað erum við sammála um að stjórnmálamenn eiga ekki að hafa (Forseti hringir.) afskipti í þessum efnum.