139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

birting upplýsinga í ævisögu -- leiðrétting ummæla --samspil menntamála og atvinnumála o.fl.

[11:56]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þráni Bertelssyni kærlega fyrir að koma með inn í þingið umræðu um meintar njósnir Sjálfstæðisflokksins fyrr á tíð um einstaklinga í þjóðfélaginu. Það sem kemur skýrt fram í bók Guðna Th. Jóhannessonar, ævisögu Gunnars Thoroddsens, er að starfsemi Sjálfstæðisflokksins var nákvæmlega, skref fyrir skref, á pari við það sem ógnarstjórnir kommúnista í Austur-Evrópu gerðu á síðari hluta síðustu aldar og sem fasistastjórnir Vestur-Evrópu gerðu á fyrri hluta síðustu aldar. Nákvæmlega eins. Þetta er pólitísk arfleifð sem er hroðaleg. Hana þarf að gera upp og Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki taka það upp hjá sjálfum sér að gera hana upp. Það er eitt sem er alveg víst. Hann gerði tilraun til að gera upp hrunið fyrir um einu og hálfu ári og var hrakinn heim með það aftur af Davíð Oddssyni sem nú situr í Hádegismóum, en þetta er arfleifð sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf að ganga frá.

Það er nauðsynlegt fyrir Ísland sem önnur lönd að hér sé starfandi starfhæfur og góður borgaralegur stjórnmálaflokkur. Það er einfaldlega fullt af fólki með þannig skoðanir sem á heima í þannig flokki. Það má hins vegar ekki vera sá Sjálfstæðisflokkur með þá pólitísku arfleifð sem núverandi flokkur er með og það má ekki vera sá Sjálfstæðisflokkur sem neitar að gera upp hrunið. Alþingi er fyllilega sá vettvangur þar sem öll stjórnmálastéttin á Íslandi þarf að koma saman og ræða þessi mál sem önnur.