139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

birting upplýsinga í ævisögu -- leiðrétting ummæla --samspil menntamála og atvinnumála o.fl.

[11:58]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til að koma hingað upp vegna orða hv. þm. Skúla Helgasonar um menntamál fyrst og fremst en ég get engu að síður ekki orða bundist. Þær eru auðvitað margar merkilegar, jólabækurnar í ár. Maður þarf því miður að hætta að lesa núna Gunnar Thoroddsen vegna Icesave-skjalanna sem liggja á borðinu en það er merkileg bók og margt sem hefur komið þar fram verður eflaust skoðað. Enginn dylur neitt, alveg eins og ég hvet menn líka til að lesa bók Þórs Whiteheads um kommúnismann og þau tengsl sem hann hafði m.a. inn í íslenskt samfélag og hefur hugsanlega enn.

Það sem ég vildi sérstaklega ræða er samhengi menntamála og atvinnulífs eins og hv. þm. Skúli Helgason kom inn á áðan. 16–25 ára hópurinn er stór hópur og ég held að við getum ekki skorast undan því lengur í þingsalnum að ræða um að halda áfram þeim breytingum sem Alþingi er búið að samþykkja, sem menntamálaráðuneytið er búið að undirbyggja, m.a. til að stytta námstíma til stúdentsprófs. Það er allt tilbúið, það hefur stórkostlegan þjóðfélagslegan sparnað fyrir kerfið allt, fyrir ríkið en ekki síður fyrir nemendurna og fjölskyldurnar. Svo má ekki gleyma hinu, að það er langmest brottfall úr íslenskum framhaldsskólum á Íslandi. Það er í beinu samhengi við fjögurra ára stúdentspróf. Það þýðir ekki að setja það eingöngu í eitthvert annað samhengi. Auðvitað er ákveðin fyrirstaða í þessu þó að allt sé tilbúið í þessa kerfisbreytingu.

Ég vil líka geta þess að ef menn tala um að það þurfi að huga að þessum hópi verða menn líka að gera það í gegnum m.a. fjárlögin. Við vitum að þeir skólar sem hafa frumgreinadeildir til að tengja fólk betur inn í skólakerfið á grundvelli m.a. atvinnumissis, eins og Keilir er að gera, verður sá skóli að fá stuðning þegar við erum akkúrat að ræða þetta viðfangsefni. Það verður fróðlegt að sjá tillögur meiri hlutans í því efni.

Ég hvet menn hins vegar til að halda áfram að stuðla að því að samþætta (Forseti hringir.) atvinnulíf og menntakerfi. Okkur hefur tekist ágætlega, en betur má ef duga skal.