139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

framtíð íslensks háskólasamfélags.

[13:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég get tekið undir með hv. þingmanni, það er mikilvægt að við ræðum stefnumótun í málefnum háskóla og líka almennt menntastefnu þjóðarinnar. Við fórum aðeins yfir háskólamálin fyrr í vetur í annarri utandagskrárumræðu en ég held að stefnan sé nokkuð sem við þurfum stanslaust að ræða og meta.

Sú stefna sem hefur verið sett núna, samþykkt í ríkisstjórn og kynnt af hálfu menntamálaráðuneytis, byggir á þremur skýrslum sem unnar voru á árinu 2009. Sú stefna sem við fylgjum sérstaklega byggir á skýrslu, og ég ætla að fá að vísa í hið enska heiti hennar,„Education, Research and Innovation Policy“, sem var sett saman af starfshópi sem forveri minn í starfi, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, setti af stað á sínum tíma þar sem fulltrúar frá OECD og finnskir sérfræðingar í háskólamálum og menntamálum komu saman og greindu hið íslenska háskóla- og vísindakerfi. Eitt af því sem þar kom fram var að kerfið væri brotakennt, þ.e. að hér hefur átt sér stað mikil gróska, hér hefur orðið vöxtur, sem að sjálfsögðu er jákvætt, en segja má um leið að kerfið hafi þróast á sinn sjálfstæða hátt með þeim afleiðingum að það er ekki endilega alltaf samræmt eða heildstætt. Það á við um háskólakerfið en líka það sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson kom inn á, stoðkerfi vísinda og rannsókna þar sem mjög mikilvægt er — og ég get tekið undir með hv. þingmanni — að byggja upp brýr frá því sem við getum kallað vísindarannsóknir yfir í nýsköpun og beina nýsköpun inn í atvinnulífið.

Það sem við Íslendingar sjáum er að við komum vel út þegar við skoðum árangur af rannsóknum og vísindum, við komum vel út að mörgu leyti þegar skoðaðar eru ritrýndar greinar, tilvísanir í ritrýndar greinar, og höfum til að mynda verið sérlega hreykin af árangri okkar í heilbrigðisvísindum svo eitt dæmi sé nefnt. Við erum líka að ná árangri víða annars staðar en það sem þarf að gera er að byggja þessa brú yfir í það sem við getum kallað nýsköpunarkerfi. Það er eitt af því sem hefur verið tekið til skoðunar og vinnslu á vettvangi Vísinda- og tækniráðs þar sem verið er að fara yfir stoðkerfið við vísindi og rannsóknir og sjóðakerfið. Ég held að það sé mikilvægt að við ræðum það líka þegar við ræðum háskólasamfélagið því að háskólar eru í eðli sínu menntastofnanir sem sinna því sem við getum kallað æðri menntun. Íslenska orðið háskóli nær ekki hinu alþjóðlega heiti „universitas“ sem vísar auðvitað í hina algildu menntun, þennan grunn sem við leggjum fyrir alhliða þekkingaröflun.

Stefnan hefur sem sagt verið þessi. Núna er að störfum samstarfsnefnd um samstarfsnet opinberu háskólanna og hún mun fyrir áramót leggja fram valkosti um hvernig sá hópur telur æskilegt að það samstarf þróist, hvernig fólk vill sjá það skipulagt, en eins og kunnugt er var sett niður tímaáætlun sem stendur til ársins 2012. Markmið þessarar áætlunar eru skýr, að standa vörð um gæði í háskólastarfi og tryggja þetta starf í þeim skólum sem taka þátt í því. Við höfum litið til hluta sem er hægt að sameina óháð því hvort af sameiningu skóla verður. Þá er ég til að mynda að vísa í sameiginlega stjórnsýslu að hluta, samræmt gæðamat, eitt upplýsingakerfi, sameinaða miðstöð fyrir framhaldsnám og annað slíkt sem eru allt hlutir sem við teljum eðlilegt að þessir skólar sameinist um, hvort sem þeir eru sjálfstæðar stofnanir eða ekki. Ástæðan fyrir því að við leggjum stefnuna svona upp er að hún á að efla samstarf og verkaskiptingu. Hugsanlega getur hún leitt til sameiningar ef menn meta svo að það sé rétti kosturinn.

Hins vegar eru ríkar áherslur lagðar á það að á öllum þessum stöðum er unnið gríðarlega öflugt starf, hvort sem við lítum til þess sem við getum kallað flaggskipið, þ.e. Háskóla Íslands, sem verður 100 ára á næsta ári og er stærsti skólinn, eða hinna þriggja opinberu skólanna. Þar hefur náðst sérhæfing á ólíkum sviðum og skiptir máli að við stöndum vörð um hana og stöndum vörð um það frumkvæði sem þaðan hefur komið. Það hefur líka verið lykilatriði að markmiðið er ekki eitt og sér að sameina eða ekki sameina, eins og hv. þingmaður nefndi, heldur fyrst og fremst að skoða hvernig við getum látið þessar opinberu skólastofnanir starfa betur saman og náð þannig aukinni samlegð en staðið um leið vörð um gæðin.

Tími minn virðist þegar vera á þrotum og ég er enn í inngangsorðunum þannig að við sjáum að við þurfum meiri tíma. Það sem við höfum líka lagt áherslu á er að einkareknu skólarnir skoði möguleika á að starfa saman. Það er hins vegar ekki loku fyrir það skotið að þeir geti tekið þátt í þessu samstarfsneti, til að mynda þegar kemur að þeim þáttum sem ég nefndi áðan. Það hefur verið mikill áhugi á því af þeirra hálfu að skoða hvaða leiðir eru til þess, eðlilega, og við vitum að það er talsvert samstarf á milli skóla, sérstaklega þegar kemur að rannsóknum og samstarfi fræðimanna, (Forseti hringir.) en til þess að það geti gengið betur þarf til að mynda að vera þetta samræmda gæðamat og það er hægt að ná fram ýmsum samlegðaráhrifum í því sem ég nefndi hér áðan. Ég kem nánar að ýmsum þessara þátta í seinna innleggi mínu.