139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

framtíð íslensks háskólasamfélags.

[13:11]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér framtíð íslenska háskólasamfélagsins og þau orð sem ég vil hafa að leiðarljósi í þessari umræðu eru þrjú; gæði, valfrelsi og áhersla í náinni framtíð á tæknimenntun.

Ef ég byrja á tæknimenntun held ég að áhersla innan háskólanna á þær greinar muni skipta sköpum fyrir íslenskt samfélag í þeirri endurreisn sem fram undan er. Við eigum og þurfum að leggja áherslu á þær greinar innan allra háskólanna, hvort heldur er innan hins opinbera geira eða einkageirans. Þar geta skólar unnið saman en það er undirstaða þess, ég ítreka það, að endurreisn íslensks samfélags verði sem mest og best. Þar verða til oftar en ekki frumkvöðlarnir, þar kvikna nýsköpunarhugmyndir og á þessum grunni verður samfélagið að byggja til næstu framtíðar.

Það skiptir líka máli, frú forseti, að nemendur hafi valfrelsi, hvort heldur þeir vilja sækja í þennan skólann eða hinn skólann, í þetta form skólans eða í þessar greinar. Einkarekinn háskóli hefur sýnt okkur hvernig aðrir opinberir háskólar blómstruðu við það eitt að fá ákveðna samkeppni, við það eitt að þurfa að horfa með öðrum hætti á það umhverfi sem háskólinn starfar í.

Í þriðja lagi er grunnurinn að góðri menntun að áhersla sé lögð á gæði. Áherslan á gæði hlýtur að vera frumskilyrði þess að háskólar á Íslandi ætli sér að vera í fremstu röð. Þá verður að meta með tilliti til allra þátta og það þarf að meta þá jafnt (Forseti hringir.) og eins og greinarnar, hvort heldur þær eru kenndar í opinberum háskóla eða einkareknum, eiga að mælast á sömu mælistiku þegar kemur að gæðamati.