139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

framtíð íslensks háskólasamfélags.

[13:18]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Það er mjög miður að heildarfjárveiting til háskólarannsóknastarfsemi skuli lækka um rúmlega 1,5 milljarða kr. frá gildandi fjárlögum. Fjárframlög til reksturs háskóla og háskólastofnana eru sem sagt lækkuð um 5% og allt upp í 9%. Það er mjög mikilvægt í árferði eins og núna, kreppu, að gefinn sé kostur á góðri menntun eins og Finnar gerðu á sínum tíma en það virðist ekki vera niðurstaðan í þessu fjárlagafrumvarpi. Þegar verið er að ræða um háskóla í landinu vil ég ítreka mikilvægi þess að staðinn sé vörður um háskóla á landsbyggðinni. Þá er ég að tala um Háskólann á Bifröst, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, Háskólann á Hólum, Akureyri og Háskólasetur Vestfjarða.

Það er mjög mikilvægt þegar rætt er um sameiningu sem er allra góðra gjalda verð að hún sé á heiðarlegum grunni. Vil ég taka sérstaklega sem dæmi þær sameiningarviðræður sem voru milli Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík sem lögðu mjög vel af stað þar sem fyrirhugað var að þó nokkur starfsemi yrði á Bifröst. Þegar á hólminn kom varð þó ljóst að það var búið að tína svoleiðis fjaðrirnar af Háskólanum á Bifröst að hann á enga möguleika á að standa eftir. Það var lagt til að þar yrði bara frumgreinadeild og endurmenntun.

Það er mjög mikilvægt þegar verið er að tala um sameiningu og samvinnu í skólum að það sé gert á heiðarlegum grundvelli en ekki fjandsamleg yfirtaka viðhöfð eins og ég vil meina að hafi verið í uppsiglingu með Háskólann á Bifröst í sameiningu við Háskólann í Reykjavík. Það er mjög gott ef þessir skólar á landsbyggðinni og einkareknu skólar eins og Háskólinn á Bifröst geta tekið þátt í þessu samstarfsneti eins og ráðherrann var að tala um. Ég tel mjög mikilvægt að reynt verði að skoða allar þær leiðir til að spara peninga og hafa samstarf um ákveðna þætti eins og nemendaskráningu.