139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

framtíð íslensks háskólasamfélags.

[13:23]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er sannkölluð áskorun við núverandi aðstæður í efnahagslífi okkar að byggja upp öflugt og gott menntakerfi í landinu. Það skiptir aldrei meiru en einmitt í efnahagsþrengingum að huga vel að innviðum og gæðum skólastarfs.

Íslensku háskólarnir hafa vaxið ört á undanförnum árum og vera kann að sá öri vöxtur sem varð í þessum geira hafi að einhverju leyti komið niður á gæðum og heildarsýn. Núna er þess vegna tækifæri til að staldra við og taka veður og áttir. Hvernig háskólastarf viljum við byggja upp í þessu landi? Hvaða umgjörð viljum við skapa rannsóknum og fræðastarfi? Undanfarin ár hefur háskóla- og vísindastarf orðið æ háðara atvinnulífi og því fjármagni sem þaðan er að hafa. Tengsl háskólanna við atvinnulífið geta vissulega verið af hinu góða en við verðum samt að huga að sjálfstæði háskólastarfsins og þar með gæðum þeirra vísinda sem iðkuð eru.

Við þurfum líka að hafa í huga aðgengi Íslendinga að háskólanámi og -starfi. Mín framtíðarsýn er sú að allir landshlutar muni innan fárra ára verða háskólaumdæmi, hver með sína sérstöðu, því að það hefur aldrei verið hægara um vik en á þeim tæknivæddu tímum sem við lifum að tryggja öllum landsmönnum aðgengi að háskólanámi og vísindastarfi, enda hefur slíkt starf rutt sér til rúms víðast hvar, m.a. með tilkomu rannsókna- og fræðasetra Háskóla Íslands.

Ég flutti nýlega þingsályktunartillögu ásamt fleiri þingmönnum um að rannsókna-, mennta- og atvinnuþróunartækifæri landshlutanna yrðu skilgreind í ljósi sérstöðu og sérhæfingar á hverjum stað og að sú skilgreining yrði höfð til hliðsjónar við ákvarðanir um fjárframlög og stuðning við fyrirtæki og stofnanir í viðkomandi landshlutum. Ég tel mikilvægt að leggja grunn að uppbyggingu og verkaskiptingu á sviði rannsókna og háskólakennslu (Forseti hringir.) á landsvísu með þeim hætti. Þetta er ögrandi verkefni, en það er aldrei brýnna en einmitt nú að fara í skilvirka stefnumótun og huga þar með að innviðum, (Forseti hringir.) gæðum og aðgengi.